Færsluflokkur: Bloggar
1.2.2009 | 21:03
Samsæriskenningin um Samfélagið
Á þremur mánuðum hafa iðnvædd ríki neyðst til að leggja stórfé úr sameiginlegum sjóðum til björgunaraðgerða. Rótgrónir bankar riða til falls í hverju landinu á fætur öðru, Bandaríkjunum, Bretlandi, Belgíu, Hollandi, Sviss, Lúxemborg, Eystrasaltsríkjum og víðar og það er viðurkennt að bankakerfi Írlands væri hrunið hefði landið ekki evruna og bakstuðning Seðlabanka Evrópu. Áhættusækin og innistæðulaus peningahyggja hefur leitt ómældan skaða yfir samfélögin. Hin óhefta frjálshyggja hefur runnið sitt skeið. Hennar bíður ekkert annað en harður dómur heimssögunnar.
Eftir að hafa lesið þetta nokkrum sinnum yfir, þá sé ég ekki betur en að hún sé að segja að inngrip ríkisstofnanna báru ekki árangur og þar af leiðandi hefur frjálshyggjan brugðist. Væri ekki eins hægt að segja að líkurnar nái í skottið á þér á endanum og ef ríkið heldur vanhæfum fjármálafyrirtækjum ítrekað á floti með inngripum komi á endanum að því að skotið verði í efsta hlaupinu þegar tekið er í gikkinn næst? Fullyrðing sem þessi finnst mér vera hreint og beint röng og ég hvet fólk til þess að melta það sem það les og heyrir. Ég efast um að það væri tekið vel í það ef að ég spyrði: Hvernig ætlar fólkið sem tók lán í erlendri mynt, (og var ítrekað búið að vara við því að það gæti þurft að taka á sig gengisskell) og juku þar af leiðandi áhættuna sem efnahagur landsins var í, að taka ábyrgð þegar það hefur ekki efni á að borga lengur? Þessi spurning er í sjálfu sér ekkert verri en spurningar til annara landsmanna um hvaða ábyrgð þeir ætla að taka.
Sjálfur tel ég mig vera frjálshyggjumann og kapítalista, sérstaklega vegna þess að ég er á móti óþarfa afskiptum ríkisvaldsins, m.a. vegna áhættu á hugsanlegri valdníðslu. Mikill áhrifavaldur á skoðanir mínar er Karl Popper og hvet ég áhugasama um að lesa verk hans eins og Open Society. Popper sagði sjálfur að ef hann þyrfti að velja á milli frelsis og jafnræðis myndi hann alltaf velja frelsið. Þar er ég sammála. Ég lít á samfélag fólks sem kaótískt kerfi þar sem frelsi til athafna og einstaklingsbundin eignaraðild muni að jafnaði bera meiri ávöxt en kerfi þar sem yfirvaldi er falið að taka ákvarðanir um markaðsþróanir.
Þegar ég hugleiddi þessa skoðun mína betur sá ég fyrir tvö knattspyrnulið á velli með tilheyrandi mannskap. Augljóslega þurfa liðin á hlutlausum dómara að halda sem sér til þess að farið sé eftir settum reglum og háttsemi sé gætt. Mér þætti það hinsvegar varasamt ef dómarinn hefði það að markmiði að það yrði alltaf jafntefli. Í þess konar aðstæðum væri dómarinn kominn í aðalhlutverkið. Hann myndi t.a.m. fara að dæma öðru liðinu í hag, veita verra liðinu forgjöf eða jafnvel fara að hræra í liðunum. Þetta er hugmynd sem hræðir mig hvað mest þegar ég hugsa um Ástandið í dag.
Annað sem hræðir mig við umræðuna í dag er hin alræmda leit að sökudólgum. Í riti Hugar frá 1992, gefið út af Félagi áhugamanna um heimskpeki, sem ég fann í Kolaportinu og keypti á 50 krónur, er viðtal við Karl Popper. Af brýnu tilefni vil ég vitna í það og bið fólk um að hafa þessi orð bak við eyrun þegar það hlustar á umræðuna um Ástandið:
Sir Karl, ég veit það frá fyrri samræðum okkar að þú lítur svo á að það að vera heimspekingur sé eitthvað sem þurfi að biðjast afsökunar á. Hvers vegna? Já, ég get ekki sagt að ég sé stoltur af því að vera kallaður heimspekingur.
Það er undarlega að orði komist. Af hverju segir þú það? Í langri sögu heimspekinnar eru þær heimspekilegu röksemdafærslur miklu fleiri sem ég ber kinnroða fyrir en hinar sem ég er stoltur af.
En augljóst er að þú telur að minnsta kosti einhvers virði að vera heimspekingur, jafnvel þó það sé ekkert til að vera hreykinn af. Ég held ég geti borið fram afsökun einhverskonar vörn fyrir tilveru heimspekinnar eða ástæðu fyrir því að þörf er á að hugsa um heimspeki.
Og hver myndi hún vera? Hún er sú að allir hafa einhverja heimspeki: við öll, þú og ég, og hver sem er. Hvort sem við vitum það eða ekki tökum við fjölmargt sem sjálfsagðan hlut. Þessar ógagnrýnu hugmyndir sem við teljum víst að séu réttar eru oft heimspekilegs eðlis. Stundum eru þær réttar; en oftar eru þessar heimspekilegu skoðanir okkar rangar. Hvort við höfum rétt eða rangt fyrir okkur er aðeins unnt að uppgötva með gagnrýnni rannsókn á þessum heimspekilegu skoðunum sem við tökum sem gefnar án gagnrýni. Ég held því fram að þessi gagnrýna rannsókn sé verkefni heimspekinnar og réttlæting fyrir tilveru hennar.
Hvað myndir þú nefna úr samtímanum sem dæmi um ógagnrýna heimspekilega kreddu sem þarfnast gagnrýnnar rannsóknar? Mjög áhrifamikil heimspeki af því tagi sem ég hef í huga er sú skoðun að þegar eitthvað slæmt gerist í samfélaginu, eitthvað sem okkur geðjast ekki að, svo sem stríð, fátækt, atvinnuleysi, þá hljóti það að stafa af einhverjum vondum ásetningi, einhverju skuggalegu ráðabruggi: einhver hefur gert það viljandi; og auðvitað græðir einhver á því. Ég hef kallað þessa heimspeklegu kreddu samsæriskenninguna um samfélagið. Það er hægt að gagnrýna hana; og ég hygg að unnt sé að sýna fram á að hún sé röng: það er margt sem gerist í samfélaginu sem leiðir óviljandi og ófyrirséð af því sem við höfum gert. Samsæriskenningin um samfélagið er ein af mörgum ógagnrýnum heimspekilegum skoðunum sem skapa þörf fyrir gagnrýna rannsókn. Þær eru að minni hyggju afsökun fyrir það að vera heimspekingur. Þessar röngu heimspekikenningar eru áhrifaríkar og einhver ætti að fjalla um þær og gagnrýna.
Getur þú nefnt önnur dæmi? Heilmörg. Mjög hættulega heimspeki má orða á þessa lund: Efnahagslegir og pólitískir hagsmunir manns ráða ávallt skoðunum hans. Ákaflega oft er þessu einungis beitt gegn andstæðingum í eftirfarandi formi: Ef þú hefur ekki sömu skoðun og ég, hlýtur þú að láta stjórnast af einhverjum skuggalegum efnahagslegum hvötum. Það sem er vont við þessa tegund heimspeki er að úti er um alvarlega umræðu ef hún er viðurkennd. Og hún slævir áhuga á því að komast að sannleikanum um hlutina. Því í staðinn fyrir að spyrja: Hver er sannleikurinn í þessu máli? spyr fólk einungis: Hvað kemur þér til að halda þessu fram? Og þetta er augljóslega spurning sem skiptir litlu máli.
Ísland er í sárum eftir nýfrjálshyggjuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)